Nætur(sjón)auka ...

2018708Hinn vel strengdi & strangheiðarlegi dr. Gylforce hefir fagnað umræðunni undanfarna daga, hvar borgin fagra hefir loksins opnað á þá hugmynd að fá næturvagna á nýjan leik. Dr.-inn man nú vel eptir vögnunum sem Almenningsvagnar, AV (Hagvagnar), óku um nætur um helgar í Voginn fagra & suður í Fjörðinn. Maður lifandi.

Tvær ferðir voru í boði frá kl. 01:20 & svá aptur kl. 03:20. Doksi tók nú bara seinni vagninn! Hann var nær alltaf troðfullur & var það saga segin að yfireitt var einn að míga inn í vagninum, annar að æla & einn til tveir strompreyktu meðan á för stóð. Góðu heilli var að þetta voru Renault PR-100 vagnarnir en dr.-num þótti nú ekki mikið til þeirra koma. Hvað um það.

Strætó bs. var líka með næturferðir fyrir nokkrum árum en dr.-inn rekur ekki minni til að hafa brúkað þær, því miður.

Það er allavega fagnaðarefni ef vagnarnir fara að ganga lengur á kvöldin & á næturnar um helgar. Heyr heyr!

Næturvagnar á nýjan leik
notalegir & huggó.
Djammarar í djúpum sleik
& doktorinn abbó!

IMG_0462Aukinheldur hefir dr. Gylforce nýtt sér aukavagnana á leið 3 hér upp við Stútulautarselið. Nema hvað. Þeir koma askvaðandi um kl. 7:26 & 7:41 - yfirleitt eðal 3ja hásinga sænskættaður - & færa doksa kallinn fljótt & örugglega að Mjódd okkar Breiðhyltinga. 

Dr.num finnst það samt furðulegt að hvergi á síðu Strætó er hægt að fá upplýsingar um þessa aukavagna. Hvað um það.

Úr Mjódd er það svá alltaf saman sagan; leið 4 & svá leið 35 í mennta- & menningarsetrið. Maður lifandi.

Aukavagnar á vegunum
verjar fjölmennir.
Þýtur doksi með þristinum
þeir eru hér tvennir.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband