Í tilefni þess að hinn munúðarfulli dr. Gylforce heldur senn til Mekka, er ekki úr vegi að rifja upp fimm stoðir vagnverjans:
1) Trúarjátningin yfirlýsing um að það sé enginn guð annar en vagnarnir og vagnverjar séu sendiboðar þeirra.
2) Bænin biðja a.m.k. fimm sinnum á dag og krjúpa í átt að Hlemmi (Hestháls og Mjódd sleppur).
3) Fastan Að sleppa því að borða, drekka og stunda kynlíf í langdvölum og þrásetum í vögnunum, sérstaklega í tunglmánuðinum (Ramadan).
4) Ölmusa hjálpa ávallt öðrum vagnverjum sem ekki eiga fyrir farinu.
5) Pílagrímsferð fara a.m.k. einu sinni á ævinni til Mekka (London).
Bloggar | 3.8.2018 | 10:14 (breytt kl. 13:38) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Hinn dálaglegi & daglegi doktor Gylforce dreif sig í dægilega heimsókn til vina sina, vagnanna. Nema hvað. Doksi kallinn datt inn í leið 3 við Mjódd & vantaði svá vagn tilbaka frá Hlemmtorginu. En ekki hvað???
Dr. Gylforce ákvað að taka leið 12 sem fer frá Hlemmi kl. 17:15. Tveimur mínútum fyrr kom tólfan líðandi & var þar á ferð hinn laglegi 344 Iveco Crossway vagn. Hélt nú dr.-inn að vagninn myndi tímajafna sig í tvær mínútur við Hlemminn. Ó-nei!Vagninn rykkti af stað & var kominn að kínverska sendiráðinu við Bríetartún þegar klukkan sló 17:15.
Svo virðist sem vagnstýran hafi áttað sig á því að vera á undan áætlun stuttu síðar því vagninn tók góða tímajöfnun við Hótel Cabin. Gallinn var hinsvegar sá að ekkert útskot eða vasi er fyrir vagninn þar & myndaðist því löng bílaröð fyrir aptan hann.
Það sem eptir lifði ferðar upp í Mjódd stoppaði vagninn á öllum biðstöðvum, hvort sem einhver ætlaði inn eða út. Var það heppilegra því yfirleitt var vasi fyrir vagninn eða minni umferð en í Borgartúninu þar sem ávallt er ys & þys.
Akstur ankannanlegur
alls staðar stöðvað.
Doksi seiminn dregur
& dró í pung augað.
Bloggar | 2.8.2018 | 19:16 (breytt kl. 19:32) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Bloggar | 30.7.2018 | 22:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Hinn framsýni & fráleitt fallvalti dr. Gylforce fagnaði vel & innilega í sveitinni, hvar hann las um komu fimm nýrra rafvagna til landsins. Hipp-hipp-húrrrrrey!
Fimm nýir rafvagnarStrætó bs. fjárfesti í 14 vögnum fyrir tæpan milljarð króna fyrir nokkru & eru þá komnir níu af þeim á klakann. Þessir hljóðlátu & huggulegu fákar hafa reynst vel & er frábær viðbót við flotann.
Það sem skortir ennþá hvað rafvagnana varðar, er hleðslustöð á eina tengistöðina til þess að vagnarnir geti keyrt frá morgni til kvölds aukinheldur sem taflan inn í vagninum fyrir oss verjana virkar ekki.
Þegar þessu tvennu hefir verið kippt í liðinn verður þetta bara unaður - fyrir oss & umhverfið.
Fimm nýir eru á næsta leiti
nálgast þeir leiðir brátt.
Orkan tæra er þeirra eldsneyti
algjörlega um þá sátt.
Bloggar | 29.7.2018 | 19:06 (breytt kl. 19:48) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Við Lágafell ljúft það var
í lauginni að busla.
Eitt í skýlum sem afbakar
auðvelt var að rusla.
Hinn stjarfi & stórmannlegi dr. Gylforce stefndi litla vagnverjanum í ferðir til Mosfellinga, hvar þá langaði í laugar & ljúflegheit við Lágafellið. Nema hvað.Feðgar einhentu sér í leið 4 við selið, skiptu yfir í tuttugu&fjegur í Mjódd okkar gettóinga & smelltu sér síðan inn í leið 15 við Ártúnið áleiðis til Mosfellinga.
Mosfellingar virðast léttleikandi & listhneigðir. Strætóskýlin eru afar litskrúðug hjá þeim & skemmtileg á að líta. Einn ljóður var þó á nokkrum; öngvar ruslafötur voru nálægt þeim & sá doksi kallinn rusl á víð & dreif í kringum þau. Þessu verða Mosfellingar að kippa í liðinn.
Ferðin sóttist hinsvegar vitaskuld vel hjá feðgunum enda fátt betra en að vera vagnverji í vagni - en ekki hvað???
Bloggar | 27.7.2018 | 00:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Vagnverjinn er að veipa
villt í skýlinu sínu.
Gufunni grimmt út hleypa
geðvondur verð ég pínu.
Dr. Gylforce vill biðla til byggðasamlagins Strætós um að gera nú gagnskör í betri merkingum í biðskýlum okkar vagnverja.Alltof opt situr verji einn (eða fleiri) í skýlinu & veipar villt & galið þegar Gylforce-inn ber að garði. Reykingar eru ekki leyfðar í biðskýlum bæjarins & þá (vonandi) ekki heldur notkun á rafrettum.
Það virðist þó vera eins & margir líti veipið öðrum augum heldur en vindlinginn. Öngvinn munur ætti að vera á þessu tvennu. Vonandi tekur Strætó bs. sig saman í andlitinu & kemur með merkingar strax nú á haustmánuðum.
Veip er reip - burt úr biðskýlunum með þetta!
Bloggar | 26.7.2018 | 00:03 (breytt kl. 00:03) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Vagnverjinn opt í vagnafans
vagninn hingað kemur.
Allt er á leið til andskotans
ávallt þó staðar nemur.
Dr. Gylforce reis upp við dogg í morgun með tvö orð á heilanum; töluvert tölvugert. Ekki veit doksi hvers vegna enda beið hann öngvra boða & hélt á vit vagna. Nema hvað.
Frá Stútlautarseli dr.´s eru tvær leiðir i boði, hin þriðja & fjórða. Að þessu sinni hélt Gylforce-inn rakleitt í þristinn & kynntist yndislegum lendum okkar Breiðhyltinga; selum, fellum og hólum.Á leið sinni varð doksa hugsað til tónleikagesta í gærkvöldi & vonaði svo innilega að vögnunum hafi tekist vel til að ferja mannskapinn úr Laugardalnum. Hvað um það.
Dr.-inn sýslaði í Mjóddinni dágóða stund en ákvað svo að fá sér annan langan & indælan rúnt. Dr. Gylforce fór því á fjörurnar við eðal Iveco Crossway vagn á leið 4.
Maður lifandi - hvar endar þessi unaður???
Bloggar | 25.7.2018 | 10:26 (breytt kl. 10:28) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Vonandi sjá sem flestir rokkþyrstir sér fært að nota vagnana til að komast á stórtónleikana í Laugardalnum.
Strætó bs. býður upp á sérferðir til að ferja fólk á Laugardalsvöllinn. Farið verður frá Háskólanum í Reykjavík, Kringlunni og Mjóddinni og beint á völlinn. Fyrsta ferð er kl. 16:30 og lýkur svá þegar allir eru komnir í rokk & ról!
Epískur doksi ljóðar lýrik
líkt & sjálfur Móses.
Allir í Dalinn, ekkert hik
upplifa Guns N´ Roses.
Bloggar | 24.7.2018 | 10:54 (breytt kl. 12:30) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Ekur austur Vesturbrún
& inn að Verzló.
Fer um teiga, dal & tún
tjúttar svo að sjó.
Hinn vægni & vægðarsami dr. Gylforce var eins & útspýtt hundskinn & út um allar trissur þennan annars ágæta dag tunglsins. Nema hvað.
Svá skemmtilega vildi til að opt & einatt var doksi kallinn eins & eilífur augnakarl í leið 14.Leiðin sú er um margt merkileg. Með sjö strætisvögnum á annatíma fer hún frá Granda að Verzló í gegnum Háskólann, Gömlu-Hringbraut, Hlemm, um Túnin, framhjá teigum, um Laugardal & laug, Langholtsveg, að Grensás & inn að skóla þeirra Verzlinga. & vitaskuld sömu leið til baka. Hvað um það.
Að þessu sinni ók hin fjórtánda leið austur Vesturbrún í stað Austurbrúnar vegna framkvæmda aukinheldur sem til stendur að breyta leiðinni lítillega í kringum Háskólann í haust. Nema hvað.
Dr. Gylforce gerði sér far með leiðinni í þrígang & fékk hina hollensku VDL-vagna í öll skiptin enda afar sjaldgæft að sjá Iveco Crossway vagna á leið þessari.
Bloggar | 23.7.2018 | 15:45 (breytt kl. 15:47) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Til að stytta tíðina
tölti ég af stað.
Horf´á laut & hlíðina
& hugsa, nema hvað.
Í grámóðu hvíldardagsins hélt dr. Gylforce á vit vagna & vildi létta lund & kæta geð. Dr.-inn hélt af stað & gekk úr laut sinni, framhjá Seljahlíð & að næsta skýli þar i námunda. Dr.-inn hapði hug á að komast að tengistöð vagnanna við Ártún. Doksi kallinn skellti sér því í leið 24 við Mjódd okkar Breiðhyltinga.
Tengistöðin Ártún er um margt orðin barns síns tima. Þarna stoppa margir vagnar & aðstaðan ekki beysin eins & myndir sýna. Vagnarnir verða að vera í rennu aukinheldur sem þrjár aðrar leiðir stoppa þar sem myndasmiðurinn smellti af.
Strætó bs. hefir rennt hýru auga til svæðis neðar í Ártúnsbrekkunni. Vonandi kemst það á einhvern rekspöl í náinni framtíð því vér vagnverjar eigum betra skilið en þetta.
Amen.
Bloggar | 22.7.2018 | 17:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Færsluflokkar
Bloggvinir
Ágúst 2025 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | |||||
3 | 4 | 5 | 6 | 7 | 8 | 9 |
10 | 11 | 12 | 13 | 14 | 15 | 16 |
17 | 18 | 19 | 20 | 21 | 22 | 23 |
24 | 25 | 26 | 27 | 28 | 29 | 30 |
31 |
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (27.8.): 3
- Sl. sólarhring: 3
- Sl. viku: 20
- Frá upphafi: 124054
Annað
- Innlit í dag: 3
- Innlit sl. viku: 20
- Gestir í dag: 3
- IP-tölur í dag: 3
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar