Færsluflokkur: Bloggar
Hinn lífspaki & leitandi dr. Gylforce leit við í vögnunum - vinum vorum - vitaskuld um helgina & nú í morgun. Nema hvað.
Í morgun lagði doksi kallinn leið sína í leið 35 hvar hann fékk að þessu sinni Karosavagninn númer 169. Þetta er vagn í eigu Strætó bs. & fagnar hann nú 10 ára afmæli sínu.
Dr.-inn hefir ekki séð vagn þennan undanfarið & skýrist það ugglaust að því að nýtt áklæði er komið í hann. Skartar vagninn fagurrauðum sætum sem eiga efalítið uppruna sinn í gömlu Scania Omnicity vögnunum.
Það er afar gott til þess að vita að byggðasamlagið sé að endurnýta hlutina & reyni að nota sem mest úr vögnum sem horfnir eru yfir móðuna miklu.
Hlaðið í kópvægskt kvæði
kominn er mánuður nýr.
Vagninn með vandað klæði
& vagnverjinn ávallt hýr.
Mynd: citybus.piwigo.com
Bloggar | 2.11.2015 | 10:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Hinn krami & grami dr. Gylforce var með gjörhygli sína á vagnavaktinni í gær. Doksi kallinn náði í nokkra vagna & átti - nú sem fyrr - unaðsþrásetur & yndislangdvalir. Nema hvað.
Dr.-inn tók þekktar stærðir í hinu lostfagra leiðakerfi en hjó eptir einu. Verktakinn vestur á Kársnesi, Kynnisferðir, hefir dregið á land hinn engilsaxneska 304 MAN vagn á leið 35. Það er vel ef báðir MAN vagnarnir (304 & 305) koma til með að skiptast á að aka leið 35 hér í Voginum.
Eitt var þó miður. Eitt sætið vantaði líkt & myndin sýnir. Svona slóðahátt myndi maður aldrei sjá í vögnum sem byggðasamlagið Strætó á sjálft & sendir út á vígvelli veganna. Þetta er vandamál verktaka að mati dr.´s. Þeir leyfa sér að slá verulega af gæða- & öryggiskröfum í vögnum sínum.
Það er því afar brýnt fyrir Strætó bs. að gera langtímasamninga við verktaka þar sem allt er niðurneglt; tegund vagna, aldur þeirra, stærð, þekking vagnstjóra á leiðakerfinu o.s.frv. Svo þurfa eptirlitsmenn að vera miklu sýnilegri & taka vagnana út, fylgjast með kortum vagnverjanna & margt fleira.
Koma svo byggðasamlag - kooommmaaaaa svoooooo!!!
Slóðaháttur, sleifarlag
slælegt & ég æli.
Á sætið glápti í gærdag
& gat ei varist skæli.
Bloggar | 30.10.2015 | 08:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Hinn fórnfæri & forkunnarfagri dr. Gylforce var nokk frekur til fjörsins í gær hvar hann tók sína alþekktu fernd. Nema hvað.
Í tímaþröng er gott að skáskjóta sér í aðeins fjórar ferðir meðal vinanna, vagnanna. En ekki hvað???
Dr.-inn tók hús á leið 35 & fékk sænskættaðan 302 Volvovagn að þessu sinni. Hinn engilsaxneski MAN 305 vagn fékk hvíldina góðu & var vel að henni komin. Doksi sat ekki lengi í þeim sænskættaða hvar hann hóaði svá í leið 4 við Efstahjalla. Eystur í Efstahjalla er ágætistenging á annatíma við leið 4 til þess að halda í Mjódd þeirra Breiðhyltinga.
Við Þönglabakkann var urmull vagna & leiða en dr.-inn varð illu heilli að halda rakleitt í mennta- & menningarsetrið við Kársnes & Kastala.
Doksi kallinn sté því inn í leið 4 áleiðis í Hamraborg & fékk í bæði skiptin hina glæstu & glænýju Crossway vagna sem reyndar eiga eins árs afmæli um jólin. Hvað um það.Að lúkningu tyllti dr. Gylforce sér aptur í leið 35 í Hamraborg okkar Kópvæginga & var þá hinn engilsaxneski & funheiti MAN 305 vagn kominn á vígvelli veganna.
Doktorsins dálæti
drottinn & faðir.
Blótið hans & blæti
bus-ar gulnaðir.
Bloggar | 29.10.2015 | 12:49 (breytt kl. 13:17) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Hinn fjölfarni & firnasterki dr. Gylforce finnst nú meira matur en feitt kjöt & brá sér því af bæ & heimsótti Norðlendingafjórðung enn á ný. Telst honum svá til að þetta sé hans fjórða heimsókn nyrðra. Nema hvað.
Eyfirðingar hafa þann háttinn á hvað vagna varðar að bjóða oss vagnverjum upp á ferðir án greiðslu. Í fyrstu vakti það góða tilfinningu hjá hinum hávelborna dr. Gylforce hvar það er ávallt hagstæðara að borga með glöðu geði en peningum. Já, gott ef hinn síungi & glottandi sjónvarpsmaður syðra, Gísli Marteinn, var ekki aukinheldur gefinn fyrir þessar hugmyndir. Frítt í vagna - upp til agna.
Dr. Gylforce sté á Oddeyri þeirra norðanmanna eins fljótt & auðið var & vildi í vagna. En ekki hvað???
Á þeim sex árum síðan doksi fór fyrst í hina hlandgulu vagna norðan heiða hefir lítið breyst. Því miður. Til að mynda gengur öngvin leið enn að flugvellinum sem er alltaf jafn skrýtið. Hvað um það.
Eymdarlegt á Eyri
aum frammistaða.
Vantar ferðir fleiri
fyrir oss blessaða.
Um helgar sigla vagnverjar fráleitt á sælum sel frá vagnaferðum sínum. Einvörðungu ein leið með einum vagni er á ferð. Það er leið 3 & fer hún aðeins sex ferðir; byrjar laust eptir hádegið & hættir rétt rúmlega hálfsjö um kvöldið. Það var því fátt um fína drætti hjá doktornum nyrðra hvar hann dvaldi þar einmitt um helgina.
Það litla sem gladdi Gylforce-inn var hinn þýskættaði vagn á vaktinni; Mercedes Benz Citaro sem er þó aðeins kominn til ára sinna.
Opt er þetta einkennandi á "ókeypis" almenningsþjónustu. Hún er augljóslega ódýr en að sama skapi léleg.
Vonandi gyrða Norðlendingar sig í brók því greiðfær er glötunarleiðin & glöggt er jú Gylforce´s augað.
Yfir&út!
Í strætónum ég staðar nem
stari, spyr & svara
veit þó eigi hvaðan ég kem
né hvert ég er að fara.
Bloggar | 28.10.2015 | 12:55 (breytt kl. 13:15) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Hinn djæfi & drottnandi doktor Gylforce hló dátt í gær hvar hann komst loksins í langan & ljómandi góðan Mercedes Benz vagn á leið 55. Nema hvað.
Dr.-inn lék sín stef í hinum kópvægska Vogi hvar hann síðan áði við Fjörð þeirra Gaflara. Þar beið hans lofandi langur 3ja hásinga MB vagn á leið 55. Hann var reyndar á leið til Reykjavíkur en ekki að Leifsstöð. Hvað um það. Inn vildi dr.-inn.
Það voru fáir í vagninum að þessu sinni. Það er að mörgu leyti skiljanlegt svona á miðjum degi. Leið 55 fer þrettán ferðir frá Leifsstöð að Firði virka daga. Níu af þessum þrettán eðalferðum enda svo í Reykjavík hvar vagninn ekur um Háskóla Íslands & nemur staðar við Umferðarmiðstöðina.
Skemmst er frá því að segja að þetta var sannkallaður unaðsrúntur frá Firði að Umferðarmiðstöðinni. Það er öruggt að doksi kallinn mun prófa þetta aptur - maður lifandi!
Í vagninum ég friðinn finn
fer með honum víða.
Þar ég sit með símann minn
síðan dett ég í'ða.
Bloggar | 22.10.2015 | 08:17 (breytt kl. 12:12) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Hinn þrýstni & þungvægi dr. Gylforce er í þungum þönkum eptir skrautlega ferð með leið 35 í gær. Í annað sinn á þessu ári upplifir dr.-inn vagnstjóra á leið 35 sem þekkir ekki leiðina & lendir í vandræðum. Maður lifandi.
Tveir strætisvagnar aka leið 35 á annatíma. Annar þeirra er frá Kynnisferðum. Þar á bæ þekkja vagnstjórarnir leiðina en nokkrum þeirra er ómögulegt að fylgja tímaáætluninni. Hvað um það.
Seinni vagninn kemur frá Strætó bs. Þar hefjast vandræðin því byggðasamlagið virðist senda menn út á örkina sem vita ekkert hvert þeir eru að fara. Ef Gylforce-inn hepði ekki verið í 156 vagninum sem fór frá Hamraborg kl. 15:52 er ekki gott að segja hvernig hepði farið.
Vagninn ók Nýbýlaveg & var kominn að Álfabrekku þegar dr. Gylforce tók eptir því að vagnstjórinn var í símanum. Doksi kallinn hugðist taka mynd af honum í símanum þegar hann tók líka eptir því að hann var á strætósíðunni að reyna að finna út úr því hvert hann ætti að fara! Aukinheldur hélt hann á möppu með mynd af leið 35. Það er ekki mjög traustvekjandi að sitja í strætisvagni & sjá vagnstjórann með símann í annarri hendinni & möppu í hinni!!!
Við Engihjalla stoppaði hann & þá sá dr.-inn að hann var alveg villtur. Hann fór því til hans & stóð við hlið hans alla leið & benti: "Beygja hægri, svo vinstri o.s.frv." Vagnstjórinn var greinilega af erlendu bergi brotinn & því hvorki kunnugur Voginum fagra né tungumálinu.
Augljóslega er þetta ekki boðlegt & hlýtur byggðasamlagið að tryggja að svona gerist ekki aptur. Bílstjórar með meirapróf eru eftirsóttir þessi dægrin & því kannski meiri starfsmannavelta á vagnstjórum en ella. Það breytir því ekki að það þarf að undirbúa mennina betur en þetta.
Villuráfandi vagnstjóri
var honum ekkert tjáð?
Þótt hann í kolli sér klóri
kunni hann öngvin ráð.
Bloggar | 20.10.2015 | 09:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Hinn göfugi & glitrandi dr. Gylforce hefir alltaf verið gagntekinn af hinum þýsku eðalvögnum sem eru illu heilli alltof fáir á vígvöllum veganna.
Til þess að komast í tæri við þýska eðalmálminn - Mercedes Benz - þurfum vér vagnverjar að einhenda okkur inn í leið 11 á annatíma. Þar býður verktakinn suður í Firði upp á tvo þýska vagna, 222 & 223, sem forðum daga óku leið leiðanna, leið 1. Hvað um það.Byggðasamlagið hefir á sínum snærum tvo þýska liðvagna, 170 & 171. Þeir eru aðeins aukavagnar á leið leiðanna (stundum á leið 6). Til stendur að festa fjár í fjórum liðvögnum á næsta ári sem að öllum líkindum verða í akstri á hinni fyrstu leið. Vonandi verða þeir af MB gerð.
Svo er vitaskuld hægt að taka leið 55 & komast þar í glæsilegan 3ja hásinga Mercedes Benz. Doksi hefir ekki komist í hann enn & vonast til þess að gera bragarbót á því á morgun.
Það verður magnað.
Nú skal byrja braginn á
Bensinum ríka.
Á þjóðvegunum þykir sá
þýður eins & p***.
Myndir: citybus.piwigo.com
Bloggar | 20.10.2015 | 09:08 (breytt kl. 09:11) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Hinn snari en fráleitt snarbilaði dr. Gylforce hefir beint haukfráum augum sínum & rannsóknum að aukavögnum á leið 1 undanfarið.
Hin fyrsta leið, eða leið leiðanna eins & doksi kallar hana einatt, er fjölmennasta leiðin í leiðakerfinu. Nema hvað.
Nokkrir aukavagnar eru gerðir út af örkinni til að anna eptirspurn vagnverjanna & þá vitaskuld á annatíma. Þessir vagnar eru ekki af verri endanum; þýskur 3ja hásinga eðall (170-171), 3ja hásinga Volvo-vagnar (192-196) eða eini Scania Omnicity vagninn í flotanum (184 gamli). Maður lifandi.
Frá klukkan 14-16 er mikið um að vera hjá vögnunum & aka þeir einungis úr miðbænum í átt að Kópavogi. Vagnarnir hefja leik við Ráðhúsið & bruna svo upp í Hamraborg okkar Kópvæginga. Þar fara allir út & þeir sem ætla lengra skella sér í aðalvagninn á leið 1.
Í sumum tilvikum dugar það ekki til & aðalvagninn verður að skilja vagnverja eptir í Hamraborginni. Það er ansi hvimleitt & vonast dr.-inn til þess að byggðasamlagið lengi ferð aukavagnanna suður í Garðabæ. Eða jafnvel lengra.
Það er fráleitt fyndið
fólkið er aumt
því aukreitis yndið
ekur of naumt.
Mynd: citybus.piwigo.com
Bloggar | 16.10.2015 | 11:49 (breytt kl. 11:49) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Hinn sefi & snari dr. Gylforce hefir tekið urmul vagna undanfarna daga hvar henn hefir ekki náð að festa slíkt hér á þessa unaðssíðu. Hvað um það.
Á laugardaginn hóaði Stútulautardoksi í vagna & áður en hann vissi af var hann kominn niður að henni Hörpu. Doksi hapði & unga vagnverjann sér til fulltingis sem er ávallt skemmtilegt.
Við Hörpu er aðeins eitt að gera; dobbeldekkerinn. Maður lifandi.
Hin fjórða ferð feðganna var unaðsleg með tveggja hæða rauðglóandi vagninum. Ferðir hans hafa verið framlengdar & mun hann ganga fram að gamlársdegi. Eiga þeir Kynnisferðarmenn miklar þakkir skildar fyrir þá ákvörðun.Dr.-inn mælir hiklaust með ferð þessari & á ugglaust eptir að bjóða hinum unga aptur í góðan & rauðleitan hring.
Amen.
Doksi með fróðleiksfýsn
fer vagna á milli.
Rallandi í reiðinnar býsn
rósemd eða kvilli?
Bloggar | 12.10.2015 | 08:28 (breytt kl. 08:34) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Hinn hótfyndni en fráleitt hótunargjarni dr. Gylforce hóf vagnarannsóknir sínar í gær um leið & hann kvaddi ungviðið hér við mennta- & menningarsetrið við Kársnes & Kastala. Nema hvað.
Hinn snipparalegi dr. Gylforce spókaði sig venju samkvæmt í leið 35. Doksi kallinn skemmti sér konunglega á hringleiðinni hvar hann svo sté út við hina bakkafullu Hjalla.
Dr. Gylforce sá glitta í Irisbus Karosa vagn á leið 24 við torg Smáranna & beið öngvra boða. Inn vildi dr.-inn.
Það gladdi hið gamla hró dr.´s hvar vagnstjórinn tímajafnaði vagninn grimmt & var vel meðvitaður um áætlun leiðarinnar. Þessu er ólíkt farið hjá þeim Kynnisferðarmönnum í Voginum sem virðast aka eptir sínum eigin hentugleika. Hvað um það.
Eptir góðan hring með leið 24 kom Gylforce-inn að Mjóddinni hvar hann lék fagurliga sín kunnuglegu stef til þess að komast í fegurstu laut jarðarinnar, Stútulautina.
Yndisvagnar síð & ár
eðall á komandi vetri.
Gylforce-inn græðir sár
& gerir heiminn betri.
Bloggar | 29.9.2015 | 09:37 (breytt kl. 09:37) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Færsluflokkar
Bloggvinir
Sept. 2025 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | 3 | 4 | 5 | 6 | |
7 | 8 | 9 | 10 | 11 | 12 | 13 |
14 | 15 | 16 | 17 | 18 | 19 | 20 |
21 | 22 | 23 | 24 | 25 | 26 | 27 |
28 | 29 | 30 |
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (3.9.): 1
- Sl. sólarhring: 16
- Sl. viku: 33
- Frá upphafi: 124087
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 23
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar