Færsluflokkur: Bloggar
Fínt það hljómar, frítt á leið
fagna þá öll hverfi.
Siglum við í samdráttarskeið
sljákkar í leiðakerfi.
Fríkeyps fjör í Lúxemborg
Margir leita nú leiða til þess að stemma stigu við umferðarvanda höfuðborgarsvæðisins & koma málum í viðunandi horf. Fyrirséð er mikil fjölgun fólks á svæðinu á næstu áratugum & því löngu tímabært að bretta upp ermar & fara að gera eitthvað róttækt í samgöngumálunum. Nema hvað.
Ein hugmynd sem heyrist af & til er að hafa ókeypis í vagnana. "Af hverju er ekki bara frítt í strætó? Þá myndi fleiri nota kerfið". Þetta heyrir dr. Gylforce reglulega & eins & sjá má á slóðinni hér að ofan ætla Lúxemborgarar að fara þessa leið. Það er góðra gjalda vert að hafa gjaldfrjálst í vagnana. Eigendur Strætós, sveitarfélögin, yrðu reyndar að punga út um 2000 fleiri milljónum á hverju ári en þau gera nú þegar. Veit nú ekki alveg hvort þau séu reiðubúin til þess.
Hinsvegar má velta því fyrir sér hvað kæmi til með að gerast í niðursveiflu hagkerfisins ef það væri frítt í vagnana. Sveitarfélögin yrðu að draga saman seglin & líklega að skera hressilega niður í leiðakerfinu. Það hugnast dr. Gylforce ekki því það mun aldrei fjölga vagnverjum að draga úr því sem nú er.
Því er skárri kostur að láta vagnverja greiða í vagnana svo þjónustan haldist sem best.
Jæja, meira síðar.
Bloggar | 27.1.2019 | 12:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Af glæsilegri gerð
er Gylforce tilbiður.
Friðsæll einn á ferð
friður sé með yður.
Þessi stolna mynd af fréttavefnum visir.is segir meir en mörg orð um ástandið í samgöngumálum á höfuðborgarsvæðinu.
Myndin er tekin síðdegis á Miklubrautinni um virkan dag þegar nánast allir eru á heimleið í austurátt á einkabílnum sínum. Nema hvað.
Á mynd þessari gefur að líta einn af fáu Volvovögnum sem eptir eru á vígvöllum veganna. Þessi er aukinheldur í lengri kantinum, svokallaður 3ja hásinga vagn, heldur kraftlaus en þægilegur fyrir oss vagnverja & nánast alltaf á leið leiðanna, leið 1. Hvað um það.
Ef sérakrein væri fyrir strætó á allri Miklubrautinni & þar færu langir & umhverfisvænir vagnar á 3-7 minútna fresti (stundum kallað Borgarlína) gæti hugsast að bílaröðin yrði styttri öllum til hagsbóta.
Góðu heilli mun sú framkvæmd - Borgarlínan - fara á gott flug á næstu misserum & árum. Það eru því spennandi tímar framundan. Maður lifandi.
Mynd: Vísir/Stefán
Bloggar | 26.1.2019 | 22:52 (breytt kl. 22:59) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Ónotaðir loks af stað
yndislegt, hvað um það.
Á akreinunum afkastað
unaður - en ekki hvað?
Jú, rétt mínir virðulegu vagnverjar. Nú er rokk & roll í vesturbæ Reykjavíkur; vagg & velta á vígvöllum veganna.Samkvæmt áreiðanlegum heimildum dr. Gylforce eru nýju vagnarnir fjórir frá verktakanum suður í Firði komnir í gagnið. Þeir koma til með að keyra á leiðum 11 & 13 & getur doksi kallinn vart hamið sig af spenningi.
Þetta kallar á að halda á vit vagna um helgina. Vonandi verða þeir í fullum skrúða þá. Maður lifandeeeee!!!
Bloggar | 25.1.2019 | 17:21 (breytt kl. 17:27) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Á vígvöllunum þæfingsfærð
varlega er farið.
Mikil er yfir verjum værð
vilja þó sumarið.
Það er óhætt að segja að vetrabúningur sé kominn á vígvelli veganna, hvar leiðir eiga fullt í fangi með að halda áætlun & komast upp í efri byggðir. Nema hvað.Dr. Gylforce gerði sér far með tveimur leiðum eptir kvöldmatinn meðan snjó kyngdi niður. En ekki hvað???
Dr.-inn dáðist að vagnstjórunum sem náðu vel að halda áætlun á leiðum 3 & 11. Ugglaust hefir það gengið mun verr í morgun & svá aptur síðdegis.
Svo er ekki annað að sjá en það verði handagangur í öskjunni í fyrramálið eptir ofankomuna í kvöld. Maður lifandi!
Bloggar | 21.1.2019 | 22:22 (breytt kl. 22:25) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Undir stýri utan við sig
athyglin farin.
Opnar ekki & þannig
upphefst hasarinn!
Hinn ungi & aldni vagnverji vildu ólmir inn í hina krikagulu & krúttlegu vagna hér í gettóinu, hvar þeir gengu hröðum skrefum í átt að biðskýli einu í grenndinni. Nema hvað.Góðu heilli kom rafvagn aðvífandi á leið 3 sem gladdi hið gamla hró Gylforce-ins & færði oss í námunda við Gerðubergið. Gott & blessað.
Heimleiðin var með fjarka góðum - þó ekki rafvagni. Eitthvað var vagnstjórinn illa vaknaður á vachtinni - jafnvel vankaður - því optar en einu sinni gleymdi hann annaðhvort að stoppa á stoppistöðvunum eða opna apturhurðirnar til að hleypa verjum út.
Það tók hinn margfræga stein úr síðan er hinn ungi & aldni ætluðu út. Sá stutti fór fyrst út en þegar dr.-inn ætlaði út lokaði stjórinn hleranum & hélt af stað. Skelfingarsvipur kom á þann yngri þegar hann horfði á eptir vagninum & föður sínum.
Sem betur fer var rödd Gylforce-ins þokkaleg svá hann gat gert vagnstjóranum viðvart sem stoppaði stuttu síðar. Hjúkk!
Koma svo, verum vakandi á vachtinni - maður lifandi!
Bloggar | 12.1.2019 | 14:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Byggðasamlagið bröltir nú
í bölvaðan sparnað.
Á leiðum vakið von & trú
en vafra í óvelfarnað.
Ömurð & eymingsskapurÞað berast heldur þumbaraleg tíðindi úr Þönglabakkanum þessa dagana, hvar eigendur Strætós stefna að hagræðingu í leiðakerfinu upp á tæpar 100 milljónir á þessu ári. Hagræðing þýðir í flestum tilfellum skerðing; minni & verri þjónusta okkur vagnverjum til handa.
Strætó bs. hefir á undanförnum misserum verið að auka þjónustu sína - góðu heilli - hægt & bítandi; meiri tíðni, ekið fyrr á sunnudagsmorgnum, lengur á kvöldin, næturakstur o.s.frv.
Ávallt skal hapt í huga að almenningssamgöngur eru dýrar ef mælt er aðeins í beinhörðum peningum; hver ekinn kílómetri kostar milljónir á ársgrundvelli & því mikilvægt að fara vel með almannafé. Nema hvað.Hinsvegar finnst dr. Gylforce stjórn Strætós skorta þolinmæði; hrint er af stað breytingum að vel ígrunduðu máli - sem er vel - en svo er möguleiki á því að breyta aptur til baka nokkrum mánuðum síðar! Dæmi um það er í minnisblaðinu hér að ofan (í hlekki) þess efnis að sumartíðni á langflestum leiðum eigi að ganga til baka! Það yrði apturför hin mesta - maður lifandi! Það verður að gefa sumartíðninni lengri tíma & skipuleggja ekki almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu út frá árstíðum!
Á hinn bóginn fyrirfinnast tillögur þarna sem meika sens. Til dæmis ein er lýtur að því að breyta akstursleið 14 á leið út á Granda & spara með því um 40 milljónir á ári. Önnur er að aðlaga næturaksturinn & ná fram smá sparnaði.
Jæja, nóg vrövl í bili. Meira síðar. Lifið veil.
Bloggar | 5.1.2019 | 11:01 (breytt 6.1.2019 kl. 10:53) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Frá morgni til miðnættis
munu keyra brátt.
Leiðir ei til ósættis
einvörðungu sátt.
Hinn vel þenkjandi & þroskaði dr. Gylforce hefir í pásu sinni hvorki verið haldinn þurrafúa né þröngsýni, hvar hann hefir aukinheldur brugðið sér vitaskuld á vit rafvagna, en ekki hvað???Strætó bs. hefir nú 14 rafvagna til umráða, framleidda í Austurvegi & virðast fyrirtaks eintök. Þeir eru þó aðeins hastari heldur en hinu glæstu & glæsilegu Iveco Crossway vagnarnir en vitneskjan varðandi rafvagnana um hundrað prósent rafmagn & núll prósent útblástur vinnur það fljótt upp. Maður lifandi.
Einn er þó hængur á; öngvar hleðslustöðvar eru sjáanlegar fyrir vagnana á tengistöðvum Strætós & er ekki annað að sjá en að byggðasamlagið skipti rafvögnunum út um fjögur leytið á daginn & bruni með þá upp á Hestháls til hleðslu. Má því í raun segja að aðeins sjö vagna séu í fullri notkun þessa dagana.
Þessu þarf að breyta; hleðslustöð á Hlemminn. Strax! Pronto! Schnell!
Bloggar | 4.1.2019 | 18:26 (breytt 8.1.2019 kl. 21:12) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Hækkar sól eptir bænahald
& hækkar í vagna verð.
Er enn gjöf en ekki gjald
í ógleymanlegri ferð.
Unaðurinn hækkar & vex
Gleðilegt ár mínir virðulegu vagnverjar! Dr. Gylforce hefir hvílt sín eigin dekk & drif undanfarna daga en hyggst nú gjörast drátthagur á nýju ári - en ekki hvað???
Nokkrar breytingar bíða oss vagnverja um helgina á hinu lostfagra leiðakerfi Strætó bs. Enn fleiri verða svo í byrjun næsta mánaðar þegar lokað verður hluta af Gömlu-Hringbraut aukinheldur sem örlítil hækkun verður í unaðinn. Maður lifandi!
& nú skal senn haldið á vit vagna. Meira síðar.
Bloggar | 2.1.2019 | 15:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þrettán ár er þokkalegt
af þusandi doksa.
Sum ykkar verðið máske svekkt
sá gamli er að koksa.
Já, mínir virðulegu vagnverjar. Það er komið að kærkominni pásu eptir 13 ár.
Bloggar | 28.11.2018 | 08:36 (breytt 21.12.2018 kl. 11:58) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Færsluflokkar
Bloggvinir
Apríl 2025 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | 3 | 4 | 5 | ||
6 | 7 | 8 | 9 | 10 | 11 | 12 |
13 | 14 | 15 | 16 | 17 | 18 | 19 |
20 | 21 | 22 | 23 | 24 | 25 | 26 |
27 | 28 | 29 | 30 |
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.4.): 1
- Sl. sólarhring: 10
- Sl. viku: 172
- Frá upphafi: 122929
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 27
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar