Færsluflokkur: Samgöngur
Er leiðanúmer lækkar
hugljúfari ég verð.
& sálarspikið stækkar
sífellt í hverri ferð.
Eins & alþjóð veit er afar hollt & huggulegt að safna miklu & góðu spiki á sálartetrið sitt frekar en kroppinn góða. Það hefir dr.-inn gert í upphafi dymbilviku en ein besta leiðin til þess er jú að taka bestu leiðina; vagnana.
Í blíðu gærdagsins var eptirtektarvert að leiðanúmer dr. Gylforce lækkuðu stöðugt með fleiri ferðum. Doksi kallinn hélt á vit vagna í leið 24 í Mjódd okkar Breiðhyltinga, því næst var komið að leið 15 við Ártún hvar svá doktorinn skellti sér í smárútu á leið 7.
Unaðurinn hélt áfram við Spöng með leið 6 alla leið að Hlemmtorginu.
Að lúkningu einhenti dr. Gylforce sér í þristinn en leið hans kýs hann nú að kalla: Hlemmur-Stútlautarsel.
Amen.
Samgöngur | 30.3.2021 | 11:04 (breytt kl. 11:05) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Í Ártúni er allt nú skýrt
& áberandi skilti.
Þetta er dásemd - ekki dýrt
djöfull hvað þetta mig tryllti!
Dr. Gylforce hefir lengi ætlað að skeiða fram á ritvöllinn & fagna nýjum skiltum í Ártúninu. En eins & á grönum Gylforce-ins má sjá er hann bæði orðinn gleyminn & gatslitinn. En hvað um það.
Dr.-inn hapði hug á að heilsa upp á Mosfellinga hvíldardaginn góða & fór vitaskuld í gegnum Ártúnið til þess arna.
Óhætt er að segja að lypt hafi verið grettistaki í merkingum við Ártúnsholtið enda ekki vanþörf á hvar þessi tengistöð er nú alls ekki sú besta í hinu lostfagra leiðakerfi byggðasamlagsins. Nema hvað.
Dr. Gylforce getur vart beðið eptir nýrri & nútímalegri tengistöð þarna sem mun heita Krossmýrartorg. Hún verður tilbúinn að í tengslum við fyrsta legg Borgarlínunnar en þá munu vagnarnir vitaskuld stoppa þar & aðgengi okkar vagnverja verður allt til fyrirmyndar.
Samgöngur | 29.3.2021 | 11:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
páskar
Sunnudagsáætlun sívinsæl
sem er heldur þunn.
Eigi þýðir hvorki vol né væl
vagninn er blessun.
Amen.
Samgöngur | 27.3.2021 | 16:48 (breytt kl. 16:50) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sálartetrið látlaust söng
að sig ætt´að ferja.
Spígsporaði uppvið Spöng
spjallaði við verja.
Spöng þeirra Grafvæginga var tesa dagsins á þessum napra en þó notalega (frí)degi hjá dr. Gylforce. En ekki hvað???
Aukinheldur endurnýjaði doksi kallinn kynni sín við Grafhyltinga & tók hús á Úlfarsárdælingum. Spennandi!
Leiðir 6, 18 & 24 komu við sögu hjá dr.-num & var sérstaklega skemmtilegt að líða um lendur Úlfarsársdals & sjá uppbygginguna þar. Aukinheldur skemmdi nú ekki fyrir að á leið 18 voru eingöngu rafvagnar eða gömlu góðu Scania Omnilink jálkarnir. Nema hvað.
Hinsvegar rak dr.-inn í rogastans þegar hann sá rafvagnana marga alla útkrotaða. Þetta gengur ekki.
Óþrifnaðurinn angrar mig
aumt að krota á sæti.
Grafvægingar nú gyrði sig
í galla með hreinlæti.
Yfir&út!
Samgöngur | 26.3.2021 | 18:12 (breytt kl. 18:26) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Allir skoða eldgosið
ekki gleyma strætó!
Brunið með þeim & brosið
í brennandi geðfró.
Þeir vagnverjar sem hafa hug á að berja hið nýja eldgos augum í Geldingadölum skal bent á að leið 55 frá Firði í Hafnarfirði.
Hún er aldeilis kjörin til að draga úr umferðarhnútum á þessu svæði. Best er svo að fara út úr leið 55 við Grindarvíkurafleggjara & taka leið 88 í átt að Grindavík.
Vonandi getur vagninn stöðvað við Bláa lónið en þaðan er víst best að rölta í átt að gosstöðvunum.
Fjórar ferðir verða með leið 88 á morgun & sú fyrsta kl. 11:23.
Nánar um vagnaferðirnar er að finna hjá Strætó á https://www.straeto.is/is/timatoflur/6/46
Koma svo - þetta er BESTA LEIÐIN - maður lifandi!
Samgöngur | 20.3.2021 | 14:15 (breytt kl. 14:17) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Grímuskylda - áfram gakk!
Gylforce er með á hreinu
því launráð & leynimakk
líklega skil´ei neinu.
Nokkuð hefir borið á því undanfarna daga að vagnverjar hafi slakað á klónni hvað grímunotkun varðar í vinum vorum, vögnunum.
Í öllum vögnum sem dr.-inn hefir skellt sér í er skilti hvar það segir að grímuskylda sé í vagninum - & ekkert múður!
Það eru enn Covid-smit út í samfélaginu okkar & meðan svo er verðum við að virða reglur & hafa grímuna með okkur þegar við tökum rúnt í unaðinum.
Munum það næst vagnverjar.
Amen.
Samgöngur | 19.3.2021 | 16:57 (breytt kl. 16:59) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Samgöngur | 18.3.2021 | 11:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Ólag & jafnvel ringulreið
reynist norðan heiða.
Lappa nú upp á hverja leið
langflestum gereyða.
Nýtt leiðakerfi nyrðra
Hinn 1. júní næstkomandi hleypa Norðlendingar af stokkunum nýju leiðakerfi innanbæjar. En ekki hvað???
Dr. Gylforce fagnar því enda hefir hann margopt nefnt það hér á þessum vettvangi hversu illskiljanlegt & óreiðukennt núverandi kerfi er. Nema hvað.
Góðu heilli virðast Norðlendingar ætla að fækka leiðunum úr sex niður í tvær. Það er heillaþróun því þessar sex leiðir aka þvers & kruss um bæinn & erfitt að átta sig á því hvur sé t.d. fljótlegust fyrir vagnverjann í hvert skipti.
Aukinheldur hefir komið upp úr dúrnum að verjum hefir fækkað eftir að leiðirnar urðu sex & vonandi ná menn vopnum sínum norðan heiða með þessari breytingu.
Ekki eru þó allir íbúar á eitt sáttir með væntanlegt kerfi. Samgöngufræðingum er tamt að vilja draga vagnana úr þröngum íbúagötum yfir á breiðari stræti og stofngötur & þétta tíðnina hressilega. T.a.m. eru áform uppi um að hætta akstri í Gilja- og Síðuhverfi að mestu & þurfa þá verjar að ganga lengri leið að skýlum sínum.
Það er kunnuglegt stef því ekki sér doksi kallinn betur en slíkt verði uppi á teningnum í nýju leiðaneti Strætós hér á höfuðborgarsvæðinu.
Yfir&út!
Samgöngur | 16.3.2021 | 18:13 (breytt kl. 18:22) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Börnin jú & Borgarlína
í belg ekki leggja orð.
Með framtíð sína framsýna
& flykkjast munu um borð.
Dr. Gylforce hefir nú um nokkurra ára skeið kennt almenningssamgöngur með ýmsu hætti í mennta- & menningarsetrinu við Kárnses. En ekki hvað???
Doksi kallinn hefir rætt reglulega við 13-15 ára um skipulag í borgum í samfélagsfræði aukinheldur sem hann hefir boðið þeim upp á valáfanga sem heitir í daglegu tali "Strætóval".
Eins & á grönum Gylforce má sjá er hann nú eldri en tvævetur & telst honum nú til að nemendur hans séu að nálgast 1000 talsins. Hví rifjar doksi kallinn þetta upp nú???
Jú, langflestir nemendur eru afar jákvæðir í garð Borgarlínunnar & að fá brú yfir Kársnesið. Þeir fagna þessum áformum & vinsælustu viðbrögð þeirra eru einfaldlega: "Er þetta að koma hjá okkur??? Kúl!"
Það er ágætt að hafa þetta í huga, sérstaklega í ljósi þess að nokkrir karlmenn á aldrinum 50-80 ára eru duglegir að skrifa í fjölmiðla hvar þeir finna Borgarlínunni allt til foráttu.
Vissulega mega þeir hafa sínar skoðanir, skárra væri það nú! En hefir einhver lesið greinar eftir fólk á aldrinum 15-30 ára um þessa samgöngubyltingu???
Dr.-inn hefir ekki séð eina einustu sem er skrýtið því þeirra er framtíðin.
Jæja - yfir&út!
Samgöngur | 15.3.2021 | 20:56 (breytt kl. 21:00) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Verktakar fljótt verða
vistvæna að fá.
Loftgæðin þeir serða
& lífið aftanfrá.
Í okkar lostfagra leiðakerfi höfuðborgarsvæðisins vill svo til að um helmingur af akstrinum ku vera ekinn af verktökum.
Að mati dr. Gylforce skiptir það í raun litlu máli hver annast aksturinn; aðalatriðið er að sinna verkefninu af einurð & einlægni. Nema hvað.
Það sem hinsvegar vekur gjörhygli Gylforce-ins er sú staðreynd að verktakarnir tveir, Hópbílar & Kynnisferðir, bjóða ekki upp á neina umhverfisvæna vagna. Það ríður í bág við alla skynsemi.
Ekki veit doksi kallinn ástæðu fyrir þessu. Vel má vera að samningar byggðasamlagsins við verktaka taki ekki á þessu máli. Ef svo er, þarf að gera bragarbót á því hið snarasta. Annað atriði er að umhverfisvænir strætisvagnar kunna að vera dýrari í innkaupum. Samningstíminn við verktaka þarf því að vera æði langur svo það borgi sig fyrir þá að bjóða upp á t.d. rafvagna sem kosta nær tvöfalt meira en venjulegur vagn.
Svo gætu ástæðurnar verið einhverjar allt aðrar - hvað veit dr.-inn???
Samgöngur | 14.3.2021 | 22:05 (breytt kl. 22:25) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Færsluflokkar
Bloggvinir
Jan. 2025 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | 3 | 4 | |||
5 | 6 | 7 | 8 | 9 | 10 | 11 |
12 | 13 | 14 | 15 | 16 | 17 | 18 |
19 | 20 | 21 | 22 | 23 | 24 | 25 |
26 | 27 | 28 | 29 | 30 | 31 |
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring: 3
- Sl. viku: 11
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 8
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar