Færsluflokkur: Samgöngur
Verjinn nú kverkar vætir
vill ólmur kneyfa öl.
Gylforce-inn þó að gætir
að gleðin end´ei sem böl.
Dr. Gylforce beið öngvra boða frjádag þennan & hætti snemmindis í mennta- & menningarsetrinu við Kársnes & fór út á galeiðuna. En ekki hvað???
Vitaskuld brúkaði doksi kallinn vini vora, vagnana, til þess að ferja sig fram & tilbaka í miðborginni.
Dr.-inn sté í fagra vagna & var meðal vagnverja, hvar hann fékk svo reyndar bilaðan vagn á leið 11. Illu heilli var 213 Irisbus þeirra Fjarðarmanna með hálfbilaða stanzrofa. Ekkert heyrðist í þeim & ekkert ljós kom til merkis um að vagninn myndi stöðva.
Við þetta kom fum & fát á margan verjann sem er skiljanlegt & þarf verktakinn suður í Firði að kíkja á vagn þennan hið snarasta.
Ekki orð um það meir!
Yfir&út!
Samgöngur | 12.3.2021 | 21:02 (breytt kl. 21:06) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Ástandið mjög annarlegt
ofbeldi, köll & þrætur.
Samfélag verja er svekkt
á smáfólki höfum gætur.
Annarlegt ástand
Dr. Gylforce varð hryggur & hnugginn við lestur á frétt þessari hvar nemendur í hans gamla skóla upp við Hörðuvelli þeirra Kópvæginga lentu í óþægilegri lífsreynslu í vinum vorum, vögnunum.
Góðu heilli er verklag vagnstjóra alveg skýrt við þessar aðstæður: stöðva vagninn, opna allir hurðir & leita allra leiða til að koma viðkomandi út. Ef það tekst ekki skal kalla til laganna verði.
Vonandi lesum við ekki svona ófögnuð aptur í bráð.
Yfir&út!
Samgöngur | 10.3.2021 | 22:38 (breytt kl. 22:39) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Bareigandi gaf því gaum
graffið þvíumlíkt
því allir sér eiga draum
um eitt skýli slíkt.
Graffað skýli
Hinn fráleitt spóalegi & spengilegi dr. Gylforce skal viðurkenna að hann er spenntur mjög fyrir að kneyfa ölið af áfergju & unaði eptirleiðis á Prikinu. Ástæðan?
Jú, verti einn virðist vera sérlegur vinur okkar vagnverjanna. Góðu heilli. Bareigandinn á Prikinu sá þetta forkunnarfagra & vel graffaða strætóskýli í Vatnsmýrinni & vildi vitaskuld klófesta það. En ekki hvað???
Hér eptir verður strætóskýli þetta í bakgarði á bar þessum & mun dr. Gylforce efalítið heimsækja staðinn fyrr en ella.
Yfir&út!
Samgöngur | 9.3.2021 | 15:56 (breytt kl. 18:50) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Vilja gera bragarbót
Borgarlínu á.
Urmul mislæg gatnamót
munum við þá sjá.
https://samgongurfyriralla.com/
Nýr áhugamannahópur sem kallar sig einfaldlega Áhugafólk um samgöngur (ÁS) hefir bæði gefið út myndband og sett upp heimasíðu. Það er alltaf fagnaðarefni þegar menn láta sig samgöngurnar varða. Nema hvað.
Það er um að gera fyrir áhugasama að skoða þessa síðu & komast að því hvað hópur þessi hefir til málanna að leggja.
Í stuttu máli vill hann einhvers konar "mini" útgáfu af Borgarlínunni (BRT-light) aukinheldur sem skoðanir þeirra er um margt sérkennilegar á almenningssamgöngum.
Sem dæmi hefir ÁS áhyggjur af bæði mengun og hávaða frá stórum vögnum línunnar. Það er afar furðulegt því vagnarnir verða umhverfisvænir með litlum hávaða & mengun.
Annað sem er heldur hjákátlegt, er þegar fólk sem ferðast hefir löngum stundum í einkabifreið sinni fer að skoða almenningssamgöngur. Þá finnur það yfirleitt að því að vagnverjar þurfi að skipta um vagna til að komast leiðar sinnar. Það er hinsvegar lítið mál & þekkja það langflestir vagnverjar. Slíkt snýst aðallega um þétta tíðni, stuttan ferðatíma og góða aðstöðu en svo vill til að þá heilögu þrenningu mun bæði Borgarlínan & nýtt leiðanet Strætós hafa upp á að bjóða.
Jæja, meira síðar.
Samgöngur | 8.3.2021 | 23:10 (breytt kl. 23:20) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Í biluðum kulda beið
blaut & orðin sár.
Vagninn án ramps, hún reið
runnu niður tár.
Á lúnum hapð´ei lyst
leigari ei til taks.
Af mörgum hefir misst
meinsemd, lögum strax!
Fékk gamlan jálk með öngvan ramp
Enda þótt dr. Gylforce þyki afar vænt um gömlu vagnana á borð við Scania Omnilink, Irisbus Karosa & Citelis, veit hann vel að þeir eru á síðustu metrunum.
Vonandi tekst byggðasamlaginu brátt að koma með trúverðuga & trausta áætlun um endurnýjun flotans svo gott aðgengi verði tryggt fyrir alla.
Samgöngur | 7.3.2021 | 09:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Skelfilegt er að skerða
skammsýni á ný?
Vagnverjar nú verða
víst að kyngja því.
S(k)erðing
Hinn 1. mars síðastliðinn var þjónusta Strætó bs. skert með því að fækka ferðum seint á kvöldin. Að mörgu leyti er það skiljanlegt; samkomutakmarkanir eru enn víða í gildi & því færra fólk á ferli. Nema hvað.
Samt skýtur það skökku við að minnka aksturinn hvar Borgarlína, nýtt leiðanet Strætós er töluvert í umræðunni hvar lögð er áhersla þar á þétta & góða tíðni. En ekki hvað???
Vissulega er byggðasamlagið í kröppum dansi. Tekjur voru af skornum skammti á síðasta ári vegna farsóttarinnar & því liggur beinast við að skera niður. Hafa ber þó í huga að hér er um tímabundnar ráðstafanir (vonandi) að ræða. Hvað um það.
Aukinheldur blasir við Strætó að reyna að finna leiðir til endurfjárfestinga. Vagnaflotinn er orðinn gamall & spurning hvort fleiri leiðum verði útvistað til verktaka á næstu misserum???
Samgöngur | 6.3.2021 | 12:10 (breytt kl. 12:12) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Hér er hjólastólalyfta
hugguleg til taks.
Mun á landsbyggð miklu skipta
mikilvæg er strax.
Hjólastólalyfta
Fyrsti vagninn sem útbúinn er með hjólastólalyptu er kominn í gagnið á landsbyggðarleið númer 57. Það er fagnaðarefni, maður lifandi.
Í útboði Vegagerðarinnar síðasta sumar var krafa um a.m.k. einn vagn með slíkan útbúnað á leiðum 51/52, 55, 56 & 57. Ekki var farið fram á slíkt á styttri leiðum landsbyggðarinnar.
Hinir þrír eru væntanlegir á næstu vikum & vonandi reynast þeir vel. Hinsvegar verður aðeins einn svona vagn á hverri leið sem takmarkar ferðafrelsi þeirra sem eru í hjólastól.
En vissulega er þetta byrjunin. Dropinn holar steininn.
Yfir&út!
Samgöngur | 5.3.2021 | 21:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Gylforce-inn safnar gögnum
um gerðir þeirra hér.
Fjölbreytileikanum fögnum
- finndu vagninn í þér.
Í gær var dr. Gylforce sem óður maður í Hamraborg þeirra Kópvæginga. Hví?
Þarna ægði saman öllum þeim unaðstegundum af vögnum sem nánast völ er á: Sænsksættaður gamall metanvagn, sænskættaður nýr metan hvítur víkingur, sænskættaður gamall og traustur Scania jálkur, rafvagnar úr Austri, vin8vagninn virðulegi & svona mætti lengi lengi telja. Maður lifandi!
Dr. Gylforce féllust nánast hendur yfir þessum mikla fjölbreytileika. Hvaða vagn? Hvaða ferð? Hvaða gerð? Erfitt val en ákveða nú ég skal.
Meira síðar.
Samgöngur | 12.1.2021 | 18:59 (breytt kl. 19:18) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Á nöprum degi nýt´ég mér
að njóta innan tíðar.
Hér er huggulegt vagnager
í Hamraborg & víðar.
Hinn sopheiti en snaggaralegi dr. Gylforce sveif í frostgrimmdinni í einu hendingskasti í menningarhús þeirra Kópavæginga, hvar hann átti erfitt með að halda einbeitingu.
Hví? Jú, vitaskuld. Í borginni háu & fögru var urmull vagna sem komu & fóru; í þeim & virðulegum vagnverjum heyrðist líkt & í kríugeri. Unaður var þetta! Maður lifandi!
Vagnarnir með bros á brá
bæta þarmaflóru.
Þvílíkt þrái ég ilminn frá
þeirra pústum stóru.
Óðara var doksi kallinn kominn út úr menningunni & beint í hámenningu vagnanna. En ekki hvað???
Samgöngur | 11.1.2021 | 21:22 (breytt kl. 21:29) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Til rúms sér nú að ryðja
róttæk samtök strax.
Borgarlínu tilbiðja
borgurum til taks.
Dr. Gylforce hefir um nokkurt skeið unnið að stofnun samtaka fyrir vagnverja þessa lands. En ekki hvað???
Vissulega eru til fyrir samtök á borð við Hollvinasamtök Strætós, hópur á fasbókinni sem heitir Strætó - lof & last - & ugglaust eitthvað meira.
Hér má sjá fyrstu tvær greinar í lögum félagsins. Þeir sem áhuga hafa á að ganga í félag þetta geta vitaskuld sett sig í samband við dr.-inn.
1. gr. Heiti félagsins, heimili og varnarþing
Félagið heitir Styrktarfélag vagngefinna.
Heimili þess og varnarþing er í Stútulautarseli dr. Gylforce, starfssvæði er landið allt.
2 gr. Tilgangur og markmið
Markmið félagsins eru að fjölga fólki í að sjá unaðinn í vögnunum - vinum vorum, vinna að auknum & bættum almenningssamgöngum á landinu öllu & valdefla vagnverja.
Samgöngur | 5.1.2021 | 22:06 (breytt kl. 22:07) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Færsluflokkar
Bloggvinir
Jan. 2025 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | 3 | 4 | |||
5 | 6 | 7 | 8 | 9 | 10 | 11 |
12 | 13 | 14 | 15 | 16 | 17 | 18 |
19 | 20 | 21 | 22 | 23 | 24 | 25 |
26 | 27 | 28 | 29 | 30 | 31 |
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring: 3
- Sl. viku: 11
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 8
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar