Með böggum hildar harla
hrikalegur vandi.
Vagnarnir eru varla
á vetur setjandi.
Já, dr. Gylforce er heldur betur með böggum hildar hvað vagnakost byggðasamlagsins áhrærir & kvíðir vetrinum. Maður lifandi!Öngvinn nýr vagn kemur í flotann á árinu 2020 vegna Covid og tekjufalls & verður að notast við gömlu jálkana eina ferðina enn.
Enda þótt dr.-inn sé mikill aðdáandi sænskættuðu vagnanna Scania Omnilink er ljóst að þeir eru alveg á síðustu (kíló)metrunum.
Góðu heilli eru nýju metanvagnarnir hvítu frá Svíaríki & vonar dr.-inn að byggðasamlagið verði duglegra að láta þá á fleiri leiðir en 6 & 18.
Vonandi nær Strætó bs. að fjármagna ný kaup á vögnum fljótt á næsta ári því útboðsferlið tekur tíma. Við gætum þá átt von á nýjum vögnum á vordögum 2021.
Doksi kallinn getur vart beðið.
Bílar og akstur | 23.8.2020 | 12:26 (breytt kl. 12:27) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Lætur hann á sjá, er lúinn
langar að hvíla sín dekk.
Líklega er hann bara búinn
best að senda hann í tékk.
Einhvurn góðviðrisdag nú í ágúst hélt dr. Gylforce í vinafagnað með vögnunum, hvar hann hitti fyrir vagna sem komu á götuna fyrir sléttum 14 árum.Irisbus Citelis heita þeir & eru evrópskir. Yfirleitt vafra þeir á vígvelli veganna á annatíma virka daga & taka örfáa hringi.
Dr.-inn tók hús á þeim bæði á leið 2 & 4 & verður að segja að vagnar þessir muna nú fífil sinn fegurri. Maður lifandi!
Vegna aðstæðna & veiru verður ekki unnt að endurnýja vagnaflotann á þessu ári en vonir standa til að byggðasamlagið geti veitt um 300 milljónum króna í vagnakaup á næsta ári.
Minna má það varla vera enda dugar slík fjárhæð aðeins fyrir fjórum rafvögnum eða svo.
Liðónýtur á leið
í löturhægum sit.
Endurnýjun ei greið
andskotans Covid!
Lífstíll | 20.8.2020 | 18:24 (breytt kl. 21:41) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Ei gjörla sagt í gríni
að gera er dauðadæmt.
Vagnstjóri með víni
varla á afturkvæmt.
Vín og vagn eiga ekki samleið
Það bárust ekki skemmtilegar fréttir af vagnstjóra einum í morgun á leið 17. Hann er grunaður um ölvun við akstur & var snarlega tekinn af vaktinni.
Sem betur fer varð ekkert óhapp en atvinnubílstjóri undir áhrifum er vitaskuld grafalvarlegt mál sem byggðasamlagið Strætó mun efalítið taka föstum tökum.
Lífstíll | 12.8.2020 | 12:43 (breytt kl. 12:46) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fjölbreytileika nú fögnum
flottur þessi vagn.
Allir með öllum í vögnum
ekkert bölv & ragn!Stjórnendur Strætós bs. halda áfram að gleðja oss vagnverja með fallega skreyttum rafvögnum. Maður lifandi.
Að þessu sinni er kominn á vígvelli veganna glæstur vagn í tilefni Hinsegin daga 2020. Vagninn er sumé tileinkaður transfólki á Íslandi og réttindabaráttu þeirra.
Vagn þessi hepði efalítið verið fremstur í flokki í Gleðigöngunni en hún hefir verið blásin af í ár vegna kórónuveirunnar sem er skiljanlegt & skynsamlegt.& talandi um veiruna skæðu:
Nú urmull Íslendinga
afneitar veiru.
Baulið í honum Binga
bölvanlegt í eyru.
Bollaleggingar Binga
Samgöngur | 7.8.2020 | 22:22 (breytt kl. 22:27) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Er nú framkvæmdafrestun
fljótt þarf að brúa bil.
Borgarlína er bestun
borgarbúum heilla til.
Foxvoxbrúin fagra
Illu heilli var hönnunarsamkeppni um Fossvogsbrúna fögru felld úr gildi á dögunum. Ljóst er að halda þarf aðra keppni sem mun fresta framkvæmdum um einhvern tíma.
Talsmaður Borgarlínunnar telur þó að frestunin hafi ekki áhrif á áætlun fyrsta legg línunnar en hann á að vera tilbúinn árið 2023.
Fossvogsbrúin er vitaskuld lykilatriði í Borgarlínunni enda mun hún valda straumhvörfum fyrir Kópvæginga, einkum þá sem búa á Kársnesinu. Maður lifandi!
Bílar og akstur | 4.8.2020 | 22:16 (breytt kl. 22:17) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Ef fargjaldið á
eigi að greiða
mun farþeginn fá
fésekt leiða.
Févíti & fokk
Hægt & bítandi er Ísland að færast inn í nútímann hvað almenningssamgöngur varðar. Góðu heilli. Stafræn strætóskýli með rauntímakorti vagna hafa verið tekin í notkun út um allan bæ, raf- & metanvagnar eru að ryðja sér til rúms, greiðslulausnin Klappið er handan við hornið aukinheldur sem Borgarlínan er í burðarliðnum. Maður lifandi!Aukinheldur er í smíðum í samgöngu- & sveitarstjórnarráðuneytinu lög sem heimila að beita sektum eða svokölluðum févítum á þá farþega sem ekki inna greiðslu af hendi í vini vora - vagnana.
Það verður sumsé ekki lengur í höndum vagnstjórans að fylgjast með hvort vagnverjar borga eður ei. Það er vel. Hlutverk hans á eingöngu að vera aksturinn, halda áætlun & aðstoða vagnverja sem þurfa á því að halda en reyna þó að lágmarka slíkt. Óþarfa spjall við vagnstjórann er ekki lengur í boði. Hvað um það.
Enn & aptur - það eru því spennandi tímar framundan.
Bílar og akstur | 4.8.2020 | 00:00 (breytt kl. 00:09) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Ekki falla í fúlan pytt
forstjóri með meiru.
Splæstu í alla vagna spritt
spornaðu við veiru.
Dr. Gylforce gerði mjög svá óvísindalega könnun á þessum annars milda frídegi verslunarmanna. Maður lifandi.
Dr.-num lék forvitni á að vita hvort sprittbrúsar væru í vinum vorum - vögnunum. & til að athuga málið varð doksi kallinn að taka hús á leiðum sem eru í umsjá Strætó bs. & verktaka. En ekki hvað???Gylforce-inn gekk hnarreistur inn í leið 3 hvar byggðasamlagið sjálft sér um akstur á þeirri leið. Öngvann sprittbrúsa var í vagninum að sjá - illu heilli - en vagnverjar voru þó velflestir með grímu.
Því næst tók dr. Gylforce hús á leið sem Kynnisferðir annast, leið 15. Þar var spírinn góði í brúsa fremst á áberandi stað & allt til fyrirmyndar. Vel gert!
Að lúkningu sté dr.-inn inn í leið 11 sem er á vegum Hópbíla. Þar var einnig brúsa að finna þannig að í fljótu bragði má segja að verktakar á vegum Strætó bs. séu með puttann á púlsinum & velvakandi meðan byggðasamlagið sjálft þarf að gyrða sig í brók.
Koma svoooooo!
Samgöngur | 3.8.2020 | 16:25 (breytt kl. 16:40) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Öngvinn vissi vart
veðrið hvaðan á sig
stóð & þvílíkt start
á strætó en hvernig?
APSAKIÐDr. Gylforce var líkt & aðrir landsmenn sem límdur við skjáinn síðastliðinn fimmtudag hvar þríeykið upplýsti að grímur skyldu vera brúkaðar í almenningssamgöngur frá og með hádegi 31. júlí. Nema hvað.
Dr.-inn skildi þessi skilaboð á sama hátt & stjórnendur byggðasamlagsins sem gerðu vel að mati dr.´s í að bregðast skjótt við & vera tilbúnir á örstuttum tíma.
Nú hefir hinsvegar komið í ljós að ekki er skylda að vera með grímu fyrir vitum sínum í vögnunum á höfuðborgarsvæðinu. Þó er mælt með því, sérstaklega fyrir þá sem eru með undirliggjandi sjúkdóma.
Nokkrir vagnverjar brugðust ókvæða við þessum hringlandahætti sem var nú óþarfi. En hvað um það.
Yfir&út!
Bloggar | 1.8.2020 | 16:56 (breytt kl. 16:58) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Höldum áfram herjans glímu
við hina veiru skæðu.
Höfum uppivið andlitsgrímu
ásamt hugarfari jákvæðu.
Gríma - ekki gríma???Eitthvað virðast skilaboðin frá byggðasamlagi Strætó vera misvísandi þessa dagana. Almannavarnir gáfu út í gær að nota ætti grímur í almenningssamgöngum & voru stjórnendur Strætós snöggir til. En ekki hvað???
Frá og með hádegi var skylda að nota grímur í vögnunum, hvar dr.-inn lét ekki sitt eptir liggja & hélt á vit vagna vopnaður einni slíkri. Nema hvað.
Ekki var nú gott að hafa grímuna & gleraugun samtímis hvar dr.-inn lagði glerið því til hliðar. Langflestir vagnverjar höpðu grímu á sér sem var vel aukinheldur sem allir vagnstjórar báru slíkt. Hvað um það.
Nú síðdegis breytti svá Strætó verklagi sínu & gaf út að gríman sé ekki skylda en mælist þó með að verjar noti hana.
Það var og. Koma svo - við erum öll almannavarnir.
Samgöngur | 31.7.2020 | 16:46 (breytt kl. 16:59) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laganna verðir vilja nú
vekja upp næturvagna.
Opnun lengja - fáir edrú
eigendur bara fagna.
Næturstrætó á ný???
Yfirmenn löggæslunnar í landinu létu af orðastympingum & einelti sín á milli eina stund í gær, hvar einn af þeim mætti á upplýsingafund Almannavarna. Góðu heilli!
Til skoðunar er að lengja opnunartíma öldurhúsa til jafnvel kl. 01 eftir miðnætti í ágústmánuði. Til að koma í veg fyrir svokallaða hópamyndun eptir lokun skemmtistaða vill lögreglan að Strætó bs. endurvekji næturvagna sína.
Það er vel.
Þeir voru hinsvegar ekki mikið nýttir meðan þeir voru við lýði. Hinar svokölluðu stofnleiðir í leiðakerfinu - leiðir 1-6 - hætta margar akstri rúmlega 24 þannig að þær ættu að duga ef opnunartíminn verður aðeins lengdur um eina klukkustund.
Sjáum hvað setur.
Yfir&út!
Samgöngur | 24.7.2020 | 14:00 (breytt kl. 23:48) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Færsluflokkar
Bloggvinir
Ágúst 2025 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | |||||
3 | 4 | 5 | 6 | 7 | 8 | 9 |
10 | 11 | 12 | 13 | 14 | 15 | 16 |
17 | 18 | 19 | 20 | 21 | 22 | 23 |
24 | 25 | 26 | 27 | 28 | 29 | 30 |
31 |
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (2.8.): 4
- Sl. sólarhring: 4
- Sl. viku: 41
- Frá upphafi: 123948
Annað
- Innlit í dag: 4
- Innlit sl. viku: 41
- Gestir í dag: 4
- IP-tölur í dag: 4
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar