Færsluflokkur: Bloggar
Ríkir um sætaferðir sjö
sátt norðan heiða?
Eða er þetta bölv & bö
sem brátt ætt´að eyða?
Hinn nyrski en þó notalegi dr. Gylforce naut þess vel að vera norðan heiða um síðustu helgi. Hinsvegar hnaut doksi kallinn enn & aptur um skipulag vagnaferða í höfuðstað Norðlendinga um helgar.
Ætli nyrskir vagnverjar séu sáttir við aðeins eina leið í gangi af sex um helgar? Leið 6 ekur á klukkutímafresti & fer fyrstu ferð kl. 12:!8 & þá síðustu kl. 18:18. M.ö.o. aðeins sjö ferðir eru í boði í leiðakerfi Norðlendinga á laugardeginum & annað eins & sunnudeginum. Reyndar voru ferðirnar vel nýttar hvar doksi kallinn var á vappi í vögnunum um síðustu helgi. En þetta er vart boðlegt!
Getur verið að ástæðan fyrir svona fáum ferðum sé til að mynda sú að ókeypis er í vagnana nyrðra???
Ókeypis þjónusta - lakari þjónusta??? Spyr sá er ei veit - veit sá er ei spyr.
Úgg!
Bloggar | 25.10.2018 | 21:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sér vegir fyrir vagna
vitaskuld þeim fagna.
Ávallt leitum umsagna
& öflum góðra gagna.
Eflum vagnana
Í þjóðfélagi voru er öngvinn maður með mönnum í stjórnmálum, í opinberum stofnunum, já eða byggðasamlögum nema hann skipi nefnd/ráð/starfshóp sem skili síðar af sér skýrslu um eitthvað tiltekið mál eða málaflokk. Nema hvað.Strætó bs. er þar öngvin undantekning. Nú hefir litið dagsins ljós vel skrifuð og skynsamleg skýrsla sem unnin er af sérfræðingum Strætó & samgönguverkfræðingum hjá Mannviti.
Í henni kennir ansi margra grasa & mun dr. Gylforce nýta gjörhygli sína hér á þessum vettvangi næstu daga til þess að rýna í skýrsla þessa. En ekki hvað???
Eins & ugglaust við var að búast leggja skýrsluhöfundar m.a. til að fjölga sérakreinum fyrir strætó, ljósastýringu á umferðarljósum & fleiri svokallaða strætóvegi. Á þeim ekur aðeins strætó & fyrirfinnast þeir núþegar á nokkrum stöðum á höfuðborgarsvæðinu eins og t.d. meðal Grafvæginga.Að mati dr.´s er hvað framsæknast & framandi í skýrslu þessari tillaga að gera strætóveg frá Hörgslandi í Fossvogi að Fagralundi þeirra Kópvæginga. Ef af honum yrði myndi hann fara í gegnum Fossvogsdalinn sem er nú efalítið eitt af eðal útivistarsvæðum borgarinnar & mikið nýttur sem slíkur.
Hér þarf að stíga afar varlega til jarðar enda nefna skýrsluhöfundar það & leggja áherslu á að ákvörðun sem þessi verður aldrei tekin nema að vel athuguðu máli & í miklu & góðu samráði við marga aðila.
Fleiri tillögur eru nefndir fyrir hugsanlega strætóvegi. Meir um þá síðar.
Bloggar | 24.10.2018 | 23:04 (breytt 26.10.2018 kl. 17:03) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Ferðir okkar Frónbúa
förin hröð & skjót.
Þarf að vera án agnúa
auðfarin & fljót.
Hinn kýrskýri & kúlduleiti dr. Gylforce ber opt kennsl á að margt sé skrýtið í kýrhausnum í veröld vorri & jafnvel hefir aldrei slíkt höfuð þurft til að svo sé - eða hvað???
Nú berast oss tíðindi frá gagnavél einni er Maskína heitir hvar hún hefir komist að þeirri niðurstöðu með aðstoð félagsvísindanna að flestum Frónbúum finnist leiðinlegt á leið. & jafnvel líka leiðinlegt á leið á leið. Nema hvað. Það var &.
Leiðinlegt á leið
Vitaskuld er dr.-inn leiður yfir niðurstöðum þessum. En vart koma þær á óvart. Frónbúar hafa ekki verið ginkeyptir fyrir glæstum ferðum gulvagnanna. Þó má merkja örlitla breytingu til batnaðar í þessum efnum.
Vér skulum aukinheldur ekki gleyma einkunnarorðum íbúa á eldri heimilum þessa lands: Góðir hlutir gerast hægt - dropinn holar steininn.
Það var &. Maður lifandi!
Bloggar | 22.10.2018 | 15:56 (breytt kl. 16:39) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Ó, minn landsbyggðarlosti
ljúft er mitt frí.
Mínu breiðasta brosti
blágula í.
Hinn heiðblái & huggulegi dr. Gylforce er himinlifandi með himneska för sína í höfuðstað Norðlendinga um helgina. En ekki hvað???Leið 57 frá Mjódd okkar Breiðhyltinga að hinu nyrska Hofi er að mörgu leyti vel heppnuð ferð. Í vagninum sjálfum, 422 Iveco sem er 57-A, er gott bil á milli sæta, innstungur fyrir oss vagnverja að ógleymdu salerninu sem kom sér sérstaklega vel fyrir unga vagnverjann. Nema hvað. Vagnstjórinn, sem ók frá Borgarnesi, var aukinheldur einstaklega alúðlegur & indæll & ferðalagið allt saman fyrirtak.
Eina sem doksi kallinn hnýtur um varðandi leið þessa eru öll þessi stopp & óþarfa hringur um Akranes. Að mati dr.´s er alveg nóg að nema staðar upp í Skaga á tveimur stöðum & láta svo innanbæjarvagninn ferja verjana áfram um Skipaskaga.
Hvað um það. Vonandi tekst dr. Gylforce að komast norður með leið 57 sem fyrst & njóta þessarar nautnafullu leiðar á næstu misserum.
Amen.
Bloggar | 21.10.2018 | 16:08 (breytt kl. 16:15) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Loksins erum lagðir af stað
langar vögnum að sinna.
Að nema vagna - nema hvað
návist þeirra finna.
Hinn ungi & aldni vagnverji hafa komist sér vel fyrir á Eyrinni hvar þeir héldu svá á vit vagna. Illu heilli misstu þeir af leiðum 1-5 því þær hætta akstri um kl. 18-18:30 virka daga.Vitaskuld er hálf hjákátlegt að halda á vit norðlenskra vagna frá föstudagskveldi til sunnudags. Þá er aðeins ein leið að störfum af sex. En hvað um það.
Á frjádagskveldinu fengum vér feðgar 10 ára gamlan MB-vagn á leið 6. Greinilegt er á öllu að Norðlendingar eru að skipta um lit á vögnum sínum sem er vel. Nýju metanvagnarnir eru appelsínugulir en þeir gömlu eru meira út í hlandgult.
Leið 6 ekur heljarinnar hring um höfuðstað Norðurlands sem er ekkert skrýtið því hér er um eina vagninn sem er á vaktinni.
Öngvu að síður skemmtum við okkur konunglega en hringur þessi tekur um 37 mínútur & er fyrirtaks "sightseeing" túr.
Bloggar | 20.10.2018 | 09:01 (breytt kl. 09:07) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Norður heldur doksi nú
í notalega vagna.
Tíðnin þar er út úr kú
opt mun bölva & ragna.Hinn illfygli ólundarfugl & illindaskjóða dr. Gylforce ætlar í sína árlegu ferð norður yfir heiðar um helgina, hvar hann hyggst komast aptur í kynni við hina sænskættuðu metanvagna. Nema hvað.
Nyrðra er að finna tvo metanvagna frá Svíaveldi & von á þeim þriðja innan tíðar. Aukinheldur bjóða Norðlendingar upp á einn eðal Iveco Crossway vagn & greinilegt á öllu að þeir hafa heldur betur endurnýjað flotann sinn. Er það vel - en ekki hvað???
Dr. Gylforce mun hefja leik í leið 57 ásamt unga vagnverjanum & halda frá Mjódd að hinu norðlenska Hofi. Vonandi verður það eðalferð & vagninn með salerni. Hvað um það.
Innanbæjarvagnarnir nyrðra eru ansi slappir um helgar eins & dr.-inn hefir nú optsinnis ritað hér um á þessum vettvangi. Aðeins ein leið af sex er í boði & hefir hún ekki akstur fyrr en kl. 12:18. Síðasti ferð er síðan kl. 18:18.
Þetta er varla boðlegt, því miður. Sjá Tímatöflur nyrðraÖngvu að síður verður unaður að komast í eðal Scania vagna en þeir eru orðnir heldur lúnir þeir sem eru hér á höfuðborgarsvæðinu.
Yfir&út!
Bloggar | 18.10.2018 | 15:38 (breytt kl. 16:48) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Í rafvagninn ég hefi rölt
rann hann þýðlega.
Efalítið þeir orðnir költ
án nokkurs trega.Hinn reikuli & ráfandi dr. Gylforce tókst að rápa inn í rafvagn á leið 4 á sunnudagssíðdegi. Flotafulltrúi byggðasamlagsins bauð upp á rafvagn númer 113 úr Austurvegi hvar hann leið ljúflega á leið um lendur gettósins. En ekki hvað???
Hinsvegar er það sama uppi á teningnum góða með þennan vagn sem & aðra rafvagna; öngvin tafla fyrir oss vagnverja innandyra. Aukinheldur heyrðist ekkert í hinni íðilfögru rödd Herdísar grýlu & því öngvar upplýsingar að hafa í ferð þessari.
Að mati doktors er það bagalegt eins & optsinnis áður hefir verið nefnt hér. Það er erfitt að átta sig á því hví ekki er búið að kippa þessu í liðinn.
Hva e a sge??? Svar óskast.
Bloggar | 14.10.2018 | 21:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Tafatími umferðar
traffík öngvri lík.
Tafirnar talsverðar
títt ég skallann strýk.
Dr. Gylforce var í vikunni meðal vagnverja í þristi sínum, hvar hann átti að leggja upp frá Hlemmtorgi kl. 16:17. Venjulega fer leið 3 af stað 22 eða jafnvel 24 mínútur yfir heila tímann en búið er að flýta för vegna umferðarteppunnar óumflýjanlegu í höfuðborginni. Nema hvað.
Vagnstjórinn virtist pollrólegur með kaffið sitt & var lítið að pæla í því að vera á annatíma, jafnvel háannatíma, & ræsti hvorki dekk né drif leiðar 3 fyrr en um kl. 16:20.
Dr.-num var vart úr sel enda vildi hann komast í hin breiðhylsku sel á réttum tíma. Allar slíkar hugleiðingar voru óþarfar því vagnstjórinn sýndi fádæma leikni & lipurð í umferðinni & skilaði oss vagnverjum upp í Mjódd kl. 16:45.
Jú, rétt. Það tók leið 3 aðeins 25 mínútur að komast frá Hlemmi að Þönglabakkanum þrátt fyrir umferð & urmul vagnverja.
Vel gert minn hávelborni vagnstjóri!
Bloggar | 13.10.2018 | 12:33 (breytt kl. 12:34) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Notkun ei nægjanleg
er næturvagn ekur.
Auðvitað játa ég
að ég sé sekur.
Næturvagnsnotkun
Hinn nálægi & nálegi dr. Gylforce varð náfölur & jafnvel negatífur eptir að hafa heyrt nýjustu fregnir af næturvagninum. Maður lifandi!Fjöldi verja hefir ekki verið eins & búist var við en vonandi hefir þó stjórn byggðasamlagsins bein í nefinu & heldur áfram næturakstri um helgar.
Eins & fram kemur í fréttinni virðist vera reytingur af rallhálfum vagnverjum í leiðum 101 & 106 sem aka í Fjörð & Spöng & til Mosfellinga. Vonandi halda þær áfram.
Illu heilli hefir dr.-inn ekki tekið hús á næturvögnunum & ætti máske að drífa sig hvar leið 103 gæti dottið uppfyrir strax eptir áramótin???
Bloggar | 12.10.2018 | 17:30 (breytt kl. 17:38) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Of fljót í för
fjarska leitt.
Ökumaður of ör
er þetta þreytt.
Dr. Gylforce stóð í síðustu viku úti lon & don á vachtinni við mennta- & menningarsetrið vestur í Kársnesi. Tímalengdin var dágóð eða frá um kl. 8:00 til rúmlega 13:00 í tvo daga. Maður lifandi.Á vacht sinni gerði Gylforce-inn sér að leik að skoða ávallt klukku sína er leið 36 ók fram hjá honum. Taldist honum það til að í 9 ferðum af 10 var leið 36 á undan áætlun. Optast var um að ræða 1-2 mínútur gat þó farið upp í 3-4 mín.
Það er ákaflega hvimleitt ef vagnstjórar geta ekki sýnt okkur vagnverjum þann sóma að vera ekki á undan uppgefinni áætlun leiða. Leið 36 skal koma við Kársnesskóla 12 & 42 mínútur yfir heila tímann, ekki 08 & 38 svá verstu dæmin séu tekin.
Vitaskuld býður doksa í grun að fáir verjar séu á ferli frá kl. 9-13 & því freistandi að bruna bara hringinn & skella sér í kaffi upp í Hamraborg.
Öngvu að síður hélt dr.-inn að byggðasamlagið fylgdist með þessu & gerði athugasemdir. Það er ekki að sjá, illu heilli.
Bloggar | 10.10.2018 | 17:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Færsluflokkar
Bloggvinir
Apríl 2025 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | 3 | 4 | 5 | ||
6 | 7 | 8 | 9 | 10 | 11 | 12 |
13 | 14 | 15 | 16 | 17 | 18 | 19 |
20 | 21 | 22 | 23 | 24 | 25 | 26 |
27 | 28 | 29 | 30 |
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.4.): 0
- Sl. sólarhring: 2
- Sl. viku: 163
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 26
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar