Færsluflokkur: Lífstíll
Loftslagskvíði leitar á
landsmenn - ekki skrýtið.
Ferðamáti til & frá
frekar breytist lítið.
Loftslagskvíði
Í fréttum Ríkissjónvarpsins um helgina kom nokk merkilegt fram hvar fréttamaður fór á stúfana & spurði fólk um loftslagskvíða og ferðamáta.
Þar kom fram að töluverður hluti fólks hefir áhyggjur af loftslagsmálum. Aukinheldur var vísað í könnun hvar fram kemur að um fimmtungur landsmanna ber nokkurn kvíðboga varðandi þessi mál.
Öngvu að síður hapði enginn viðmælandi fréttastofu breytt ferðavenjum sínum. Kannski er það ekki skrýtið en svo virðist sem illa gangi að fá höfuðborgarbúa til þess að nota t.d. almenningssamgöngur. Hlutfall ferða hefir staðið í stað um alllangt skeið, er aðeins um 4% af öllum ferðum, og virðist ganga erfiðlega að hækka þá tölu.
Strætó bs. er vitaskuld meðvitað um þetta og hefir hafið sókn með nýju leiðaneti sem er í vinnslu samfara hinni margumtöluðu Borgarlínu.
Vonandi verður breyting á þessu á næstu árum & áratugum enda fátt í boði annað en að hvetja almenning til þess að ferðast á sem fjölbreyttastan hátt.
Lífstíll | 12.2.2020 | 11:01 (breytt kl. 11:02) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Annar hvítur kominn hér
keyrir um á metan.
Sænskættaður eðall er
umhverfisvæn er setan.
Strætó bs. hefir sett í umferð annan hvítan metanvagn handa oss vagnverjum & umhverfinu til heilla. Nema hvað.
Byggðasamlagið hefir því þrjá umhverfisvæna metanvagna til umráða - einn heldur gamlan - ásamt rafvögnunum fjórtán úr Austri.
Samt sem áður er alltof fáir vagnar í þessum flokki eða aðeins um 11-12%; gera þarf gangskör í því að fjölga vögnum þessum & veit dr. Gylforce að stjórn samlagsins er því sammála. Á þessu ári er ætlunin að gefa vel í varðandi endurnýjun vagnaflotans & vonandi ber forvígismönnum Strætós gæfa til þess að festa eingöngu fjár í vistvænum vögnum. En ekki hvað???
Aukinheldur er það allra athyglisvert að hvorugur verktakinn sem annast akstur fyrir Strætó sér hag sinn í að nota umhverfisvæna vagna. Af hverju ætli það sé???
Hvað sem því líður hyggst dr. Gylforce fara á fjörurnar við hinn nýja hvíta víking eins fljótt & kostur er.
Amen.
Lífstíll | 11.2.2020 | 13:27 (breytt kl. 13:29) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Það var einkar vel til fundið hjá Kvikmyndasafni Íslands & Hafnarfjarðarbæ að bjóða upp á bílabíó á Safnanóttinni.
Enn betra var að hafa forláta strætisvagn til taks fyrir þá sem ekki voru á einkabílnum - óvininum - en vildu koma & upplifa þessa skemmtilegu stemmningu.
Sýndar voru myndirnar Stuttur frakki og Sódóma Reykjavík & hepði nú dr. Gylforce mikið viljað vera þarna en það tókst ekki að þessu sinni. Illu heilli.
Vonandi verður þetta endurtekið með vagninum svá doksi kallinn geti komið, setið & notið mynda í botn í unaðslegum strætisvagni.
Bílabíó á Safnanátt
bus-inn góð hugmynd.
Kók & popp, á hjalla kátt
komst þó ekki - synd!
Yfir&út!
Lífstíll | 10.2.2020 | 07:36 (breytt kl. 08:23) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Vagnverjinn vill góða nánd
vera kátur & keikur.
Í athöfninni er varla sánd
aðeins djúpur sleikur.
Sleikur-inn
Vitaskuld eru vagnverjar misjafnir eins & þeir eru margir. Einn nokk þekktur Twittermaður & verji tísti á dögunum um reynslu sína af vagnaferð & virtist ekki vera par sáttur.
I sætinu fyrir framan hann var par sem var opt & einatt í sæmilega góðum sleik; virtist þetta trufla upplifun hans af unaðinum, illu heilli.
Dr.-inn tekur nú ekki undir þetta. Hann hefir endrum & sinnum setið í vögnum hvar amorinn svífur yfir vötnum (vögnum?). Honum finnst það bara fallegt & truflar hann ekki hætishót.
Það var verra hér í denn þegar menn voru að gera þarfir sínar í næturvagninum sem þá ók frá Lækjartorgi upp í Hamraborg, austur Álfhólsveg að Mjódd & endaði suður í Firði.
Í þeim ferðum gerðist margt mjög skrýtið enda voru þær ekki langlífar. Maður lifandi!
Lífstíll | 9.2.2020 | 09:04 (breytt kl. 09:13) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Í framtíðarferðamátum
fjör er og gaman.
Lengi sitjum, ei með látum
losunin dregst saman.
Í nokkur ár hefir dr. Gylforce farið fyrir athyglis- & áhugaverðum áfanga fyrir mennta- & menningarsetrið við Kársnes hvar hann kennir ungviðinu að nýta sér kosti vagnanna. En ekki hvað???
Í stuttu máli er nemendum úthlutað verkefni sem aðallega er fólgið í því að komast frá Kársnesskóla að einhverri ákveðinni tengistöð i kerfi Strætós, t.d. Spöng, Háholti í Mosfellsbæ eða Firði í Hafnarfirði. Hver og einn fær aðeins strætómiða frá dr.-num & á ungviðið að komast fram & tilbaka & sanna að það hafi gengið eptir með því að senda frá sér Snapchat.
Í sem skemmstu máli hefir valáfangi þessi slegið í gegn vestur á Kársnesi & komast yfirleitt færri að en vilja. En ekki hvað???
Dr. Gylforce elur þann draum i brjósti að hægt verði að fá enn yngri nemendur til þess að spreyta sig næst og jafnvel víkka áfangann út & horfa til allra vistvænna ferðamáta. Nema hvað???
Að mati dr.´s er Kársnesið í Kópavogi í dauðafæri að vera leiðandi samfélag um vistvænar ferðir íbúanna vegna legu sinnar og brúarinnar yfir Fossvog sem mun gjörbreyta & bæta lífsgæðin á nesinu fagra.
Yfir&út!
Lífstíll | 8.2.2020 | 10:04 (breytt kl. 10:10) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Hönnunarteymið hossast af stað
hér geturðu um það lesið.
Hamraborg/Hlemmur - nema hvað
mun "hæpa" upp Kársnesið.
Hönnunarteymi á vegum Borgarlínunnar er komið á fullt & hyggst koma með drög í vor að fyrstu áföngunum tveimur á línunni.
Áfangarnir eru alls um 13 kílómetrar að lengd; annar frá Hamraborginni háu & fögru í Voginum að Hlemmtorgi en hinn verður frá Hlemmi að Ártúni.
Aukinheldur mun teymið koma með tillögur um hvers konar vagnar eigi að vera í Borgarlínunni (rafmagns-, vetni- eða metanvagnar).
Ennfremur verða drög að nýju leiðakerfi kynnt svo fátt eitt sé nefnt.
Með Borgarlínu & brú frá Kársnesi yfir í Vatnsmýrina skapast gríðarleg tækifæri fyrir nesverja & efalítið verður þetta mikil lyftistöng fyrir svæðið og það eftirsóknarverðara en ella. En ekki hvað???
Mennta- & menningarsetrið við Kársnes, hvar dr. Gylforce starfar, mun ekki láta sitt eptir liggja. Setrið hyggst verða leiðandi á næstu misserum & árum í því að leiðbeina ungviðinu um ágæti vistvænna ferðamáta enda rímar slíkt afar vel við Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna sem nú eru mjög í brennidepli.
Það er því vor í lopti hvað betri almenningssamgöngur varðar & ekki hægt að segja annað en að dr. Gylforce sé fullur tilhlökkunar.
Amen.
Lífstíll | 7.2.2020 | 08:50 (breytt kl. 09:36) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Merkingar hófust í haust
halda áfram í vetur.
Verkefnið er óvitlaust
og hægt að gera betur.
Huggulegar heilmerkingar
Eins & ugglaust flestir vagnverjar hafa glögglega tekið eptir ákvað Strætó bs. að heimila auglýsingar á vinum vorum - vögnunum - á ný eptir um 11 ára hlé. Nema hvað.
Í fyrstu hafa einungis verið um svokallaðar heilmerkingar á vögnum að ræða, aðallega rafvögnum, sem margar hverjar hafa heppnast vel að mati dr. Gylforce.
Nýjasta afurðin í þessum flokki er glæstur & glæsilegur rauðbirkinn World Class vagn sem vér vagnverjar komum til með að sjá á vígvöllum veganna næstu vikurnar.
Í tilefni af þeim rauða lét fyrirtækið gera skemmtilegt myndband sem sjá má í fréttinni í hlekknum.
Njótið, njótið.
Lífstíll | 6.2.2020 | 08:46 (breytt kl. 08:50) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Oysterkort finnst í Englandi
Octopus ku vera í Kína.
Megi yfir oss koma andi
allir láti ljós sitt skína.
Á næstunni efnir Strætó bs. til nafnasamkeppni á nýju greiðslukerfi sem taka á í notkun á vordögum. Jibbíkóla!
Í ýmsum löndum hefur vel tekist til með nafnagift þessa & má þar til dæmis nefna Rejsekort í Danmörku og Oystercard í London.
Illu heilli getur dr. Gylforce ekki tekið þátt í keppninni hvar hann mun sitja í dómnefnd fyrir byggðasamlagið - en ekki hvað???
Dr.-inn vill aptur á móti hvetja alla vagnverja til þess að leggja höfuðið í bleyti & koma upp með hnyttið & huggulegt nafn sem festast mun eins & flís við rass við greiðslukerfið.
Koma svooooo!!!
Nýtt greiðslukerfi hjá Strætó
Lífstíll | 5.2.2020 | 15:53 (breytt kl. 16:56) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Í bobba nú blágulir
bölvanlegt máske.
í dreifbýlinu dulir
djöfullinn er að ske???
Vagnar í vanda
Í upphafi ársins 2020 mun Vegagerðin sjá um allan akstur landsbyggðarvagna sem hafa hapt blágulan lit sem einkenni sitt. Nema hvað.
Verktakinn Hópbílar hafa að megninu til séð um akstur þennan en nú virðist öreindið þrjóta hjá sveitarfélögunum á landsbyggðinni & senda þau boltann yfir til Vegagerðarinnar. Líklegt má telja að stofnunin sú muni bjóða út akstur þennan á næsta ári.
Í sjálfu sér skiptir litlu máli hver sér um aksturinn. Vagnverjar þurfa vitaskuld á góðri þjónustu að halda & hafa hana samræmda við Strætó bs. hvað tímatöflur & helst skiptimöguleika varðar.
Vonandi þýðir þessi breyting ekki að sérleyfin koma aptur & alls kyns verktakar hefja akstur á ýmsum leiðum með lítilli sem öngvri samræmingu.
Þá verður illa komið fyrir blágulu vinum vorum. Maður lifandi!
En hví notar fólk ekki þann blágula meir en raun ber vitni? Ætli það sé ekki verðið, það er of dýrt í vagnana. Sem dæmi er hægt að fá flug til Akureyrar á sambærilegu verði og vagninn; 45 mínútna flug ellegar 6,5 klst ferð með vagninum (unaðsferð reyndar)???
Valið er auðvelt hjá flestum.
Vonandi koma framsýnir verktakar sem þora að lækka verðið, halda uppi öflugri þjónustu & fjölga með því vagnverjum umtalsvert & ná að snúa blaðinu við.
Lífstíll | 31.12.2019 | 12:10 (breytt kl. 12:14) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Vefmiðillinn Viljinn sendi á dögunum Strætó bs. fyrirspurn um nýtingu á vögnum byggðasamlagsins. Að mörgu leyti er það góð & þörf spurning enda er svarið allra athyglivert.
Kíkjum á það:
"Fjöldi innstiga í Strætó á höfuðborgarsvæðinu árið 2018 var 11.405.700. Fjöldi ferða sem farnar voru árið 2018: 642.865
Við erum með fjölda farþega árið 2018 og deildum honum með fjölda ferða sem farnar voru árið 2018. Þannig fengum við út tölu fyrir Fjölda farþega í ferð.
Sumsé, 17,7 vagnverjar eru í hverri ferð og alls komast um 85 í troðfullan vagn. Það gerir um 20,8% nýtingu í hverri ferð sem er ekki hátt hlutfall.
Hinsvegar er ekkert getið um það að yfirleitt eru um 34 sæti í einum venjulegum strætisvagni og því sætanýtingin vel yfir 50% í hverri ferð. Það er að mati Gylforce-ins athyglisvert & hærra en hann hélt. Hvað um það.
Hver eru þá næstu skref Viljans? Hlýtur það ekki að vera að hafa samband við Félag íslenskra bifreiðaeigenda, FÍB, eða Samgöngustofu og fá upplýsingar um hlutfallið í einkabílum? Það hepði dr.-inn haldið.
Augljóslega verða þær tölur hærri en 20% enda hlýtur að vera fleiri en 1 í hverjum 5 manna bíl (vonum það!!!)
Eða er ætlunin með grein þessari að kasta rýrð á almenningssamgöngur? Getur það verið? Það er aukinheldur skrýtið að segja í greininni "við höfum séð sambærilegar tölur fyrir Norðurlöndin" Hvar er þær tölur? Af hverju eru þær ekki settar fram í greininni? Eru þær hærri/lægri? Líklega hærri en hvað veit maður???
Má dr. Gylforce biðja um betri & nákvæmari vinnubrögð í næstu grein. Maður lifandi!
Ég Viljansrök aptur rek
unaðinn hann letur.
Viljann fyrir verkið þó tek
vanda skal sig betur.
Vaðall í Vilja
Lífstíll | 30.12.2019 | 16:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Færsluflokkar
Bloggvinir
Nóv. 2024 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | |||||
3 | 4 | 5 | 6 | 7 | 8 | 9 |
10 | 11 | 12 | 13 | 14 | 15 | 16 |
17 | 18 | 19 | 20 | 21 | 22 | 23 |
24 | 25 | 26 | 27 | 28 | 29 | 30 |
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.11.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 8
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 7
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar